Færsluflokkur: Bloggar
21.9.2023 | 16:24
Fjörukráin
Hæ hæ bloggvinir í gær fór ég á Fjörukrána í Hafnarfirði og fékk mér einn bjór. Hafið þið farið þangað og ef já - hvernig fannst ykkur? Mér fannst skemmtilegt!
Kveðja Ísabella
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.9.2023 | 22:18
Maðurinn með ljáinn: 3. hluti - Ástin vaknar
Eins og tryggir lesendur muna skildum við síðast við manninn með ljáinn þegar hann var að eiga óvæn og skemmtileg samskipti við Nancy Landgraab. Samskiptin voru vinaleg og þau náðu vel saman, mjög vel.
Á meðan á samræðunum stóð áttaði maðurinn með ljáinn sig á því að hann var farinn að upplifa einhverjar nýjar tilfinningar sem hann hafði aldrei upplifað áður. Hann var með fiðring í maganum en gat með engu móti sett fingurinn á það sem olli þessu. Skyndilega fékk hann hugdettu, gæti það verið Nancy sem var að hafa þessi áhrif á hann? Hann gat ekki hætt að hugsa um hvað honum þótti hún skemmtileg og falleg. "Bíddu, getur það verið?" hugsaði maðurinn með ljáinn, "Getur verið að ég sé-nei, það getur ekki verið... ég er ekki fær um svoleiðis tilfinninga-" "Hvað ertu að hugsa?" Nancy kippti manninum með ljáinn aftur í raunveruleikann, "Ég sé að þú ert eitthvað utan við þig" sagði Nancy. Maðurinn með ljáinn ákvað að horfast í augu við tilfinningar sínar og berskjalda sig í fyrsta skipti á ævinni. "Nancy... ég veit ekki alveg hvernig ég á að segja þetta en... ég... ég er skotinn í þér." Nancy starði á hann, hún þagði um stund og hvíslaði svo "Mér líður eins gagnvart þér."
Maðurinn með ljáinn trúði þessu ekki, hann fylltist hamingju og tilfinningin gjörsamlega heltók hann. Nancy og maðurinn með ljáinn kysstust ástríðufullum kossi en einmitt á þeirri stundu gekk Geoffrey Landgraab, eiginmaður Nancy, inn í herbergið. Hann trúði ekki sínum eigin augum, hvernig gat Nancy gert honum þetta? Og með manninum með ljáinn af öllum! Hann brotnaði niður og grét á gólfinu. Nancy og maðurinn með ljáinn fengu hvort um sig sting í magann úr samviskubiti og maðurinn með ljáinn þótti það best að hann færi heim til sín. Hann gerði sér fulla grein fyrir því að Nancy og Geoffrey þyrftu að ræða saman og maðurinn með ljáinn vildi gefa þeim nóg pláss til þess.
Maðurinn með ljáinn tók taxa á nýja heimilið sitt sem hann var að fara að deila með nýju fjölskyldunni sinni, Zach, Zoey og Spy. Á leiðinni hringsnerust hugsanir í hausnum á honum. Hann var spenntur og miður sín samtímis. Myndu hlutirnir þróast hjá honum og Nancy eða myndi hún halda í hjónabandið sitt með Geoffrey? Myndi manninum með ljáinn koma vel saman við nýju fjölskylduna sína? hvernig mun maðurinn með ljáinn takast á við allar þessar tilfinningar? Þessu verður öllu gert ljóst í næsta og síðasta hluta þessarar sögu.
Bloggar | Breytt 27.9.2023 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2023 | 13:32
Guinness mílan uppfærsla
Hæ hæ allir bloggvinir, eins og þið lásuð á föstudaginn fór ég í leiðangur að drekka átta Guinness bjóra á átta börum. Við byrjuðum á Dubliner þar sem bjórinn var svona 6/10 og stemningin var ekki minn tebolli, mjög hávær tónlist og þau spiluðu bara skrítin remix af tónlist frá svona 2010, til dæmis var eitt remix af Pumped Up Kicks.
Næst var leiðinni heitið á The Drunk Rabbit og þar þótti mér yndislegt að vera. Þar var trúbador að spila tónlist en ég skal segja ykkur það að þetta var enginn venjulegur trúbador sem spilar á gítar og syngur, þessi spilaði á fiðlu. Guinnessinn var líka töluvert betri á Drunk Rabbit, kannski svona 8/10 en ég viðurkenni það að þrátt fyrir að þetta var bara Guinness númer 2 af 8 þá var ég strax farin að eiga erfitt. Maginn var farinn að fyllast en ég kláraði nú samt bjórinn og við héldum á næsta stað; English Pub.
Stemningin þar kom mér skemmtilega á óvart, þar var hefðbundinn trúbbi að spila og orkan inni á barnum var hlý og góð. Hér fékk ég mér þriðja Guinnessinn en í þetta skipti fékk ég Kristján til að aðstoða mig aðeins við að klára hann. Stundum þykir mér auðvelt að drekka Guinness og mikið af honum en svo var ekki þetta kvöld. Kannski ef ég hefði bara haft aðeins meiri tíma þá hefði þetta verið aðeins auðveldara. En mílan bíður ekki eftir neinum og nú var förinni heitið á Danska.
Ég ákvað á leiðinni að fá mér ekki Guinness þar, ég ætlaði að taka pásu, en áður en ég vissi var ég komin á barinn, pantandi Guinness sem ég fékk svo í Gull glasi... Konan sem afgreiddi mig afsakaði þetta, hún sagði að það væri metsala í Guinness hjá þeim þetta kvöld svo það voru ekki til nein fleiri Guinness glös. Þegar hún tjáði mér þetta fylltist ég stollti frekar en gremju og hélt út til þess að drekka bjórinn minn. Nú var hópur þátttakanda orðinn töluvert stærri, ég myndi segja að þarna vorum við orðin um það bil 30 manns. 30 manns með 30 Guinnessa. Á þessum tímapunkti var ég orðin aðeins of ölvuð til þess að dæma gæði bjórsins, eina sem ég gat hugsað um var hvernig ég ætti að klára hann án þess að kasta upp. Ég var allt of södd. Á einhverjum tímapunkti fór ég á klósettið sem er ekki frá sögu færandi en mig langaði nú samt að vekja athygli á því hversu léleg klósettin eru á Danska barnum. Þar er eitt klósett fyrir konur og FIMM pissuskálar fyrir karla. Og það er líka mjög mikil pissulykt þarna oj barasta. En jæja ég náði ekki að klára bjórinn minn hér, ég tók hann samt með mér í Gull glasinu og drakk á meðan við gengum á Ölstofuna.
Nú var ég sko algjörlega á því að ég ætlaði EKKI að fá mér annan Guinness, ég bara gat það ekki, en viti menn, það fyrsta sem ég sá þegar ég gekk inn á barinn var pabbi minn, með útréttan handlegg, réttandi mér Guinnessinn sem hann hafði keypt fyrir mig rétt í þessu. Hvað gat ég gert? Ég varð að drekka hann. Það var mjög gaman á Ölstofunni og hópur Guinness drekkanda var orðinn ennþá stærri. Við vorum öll saman í liði. Jú, það var erfitt að drekka svona mikinn Guinness svona hratt, en við vorum öll saman í þessu. Eftir ákveðin erfiði náði ég nokkurn veginn að klára bjórinn minn, ég skildi bara smá eftir í botninum eins og ríkt miðaldra fólk gerir alltaf. Nú fórum við á Lebowski.
Ég fór reyndar aldrei inn á Lebowski. Ég sat í tröppunum hinu megin við barinn og drakk dósabjór (lager ekki Guinness...) með Írisi. Ég bara gat engan veginn meiri Guinness. Við sátum og spjölluðum og pissuðum. Þetta var pásan sem ég þurfti. Næst var Irishman.
Nú var ég algjörlega búin að kúpla mig úr mílunni og fékk mér vatnsglas. Það var samt yndislegt á Irishman, tveir trúbbar og svaka stuð. Þrátt fyrir það var ég farin að finna á mér að mig langaði bráðum heim. Ég þorði samt ekki að segja neitt, mig langaði alveg að þrauka og komast alla vega á alla staðina þótt ég fengi mér ekki bjór. En þá komu Kristján og pabbi til mín og stungu upp á að fara í taxa heim. Ég þurfti enga sannfæringu. Við stoppuðum næsta taxa og brunuðum heim. Íris og Kjartan komu með okkur og fóru út í Garðabæ á leiðinni.
Þegar ég kom heim var ég sátt. Ég hafði gert mitt allra besta og ég hafði verið trú sjálfri mér. Ég er ekki leið að ég náði ekki að drekka átta Guinnessa á átta stöðum. Ég drakk um það bil fimm Guinnessa á fimm stöðum og mér finnst það mjög flott. Og líka ég græddi geggjað glas sem ég get notað í skólanum undir vatn.
Kveðja Ísabella
P.s. Ég var að komast að því að það er hægt að fá Sims 3 frítt á mac!!! Spilaði fullt í gær og gellan mín lenti í ýmsum ævintýrum sem ég mun kannski segja ykkur bloggvinum frá bráðum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.9.2023 | 17:25
Guinness míla
Jæja bloggvinir þá er komið að því. Í kvöld er ég að fara að drekka átta Guinness bjóra á átta mismunandi börum. Þetta hef ég aldrei gert áður en ég er mjög spennt, líka smá tortryggin, átta Guinnessar eru frekar margir Guinnessar. Fjórir lítrar af Guinness. Bróðir min skipulagði þennan leiðangur til þess að fagna afmælinu sínu sem var síðasta miðvikudag, 13. september. Barirnir sem við munum fara á eru Dubliner, Drunk Rabbit, English, Danski, Ölstofan, Lebowski, Irishman og Kaffibarinn í þessari röð. Ég ætla að fara að gera mig til núna, ég læt ykkur vita hvernig fór á morgun.
Kveðja Ísabella
P.s. Ég fékk nýjar Joe Boxer nærbuxur/stuttbuxur í dag!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2023 | 10:30
Maðurinn með ljáinn: 2. hluti - Nýr maður
Í fyrsta hlutanum fórum við yfir örlög Landgraab stráksins en hvað tók við? Hvað gerði Landgraab fjölskyldan í kjölfar dauðans? Komst Zachary í hellinn stóra? Hvað er að fara að gerast við manninn með ljáinn? Þessum spurningum verður öllum svarað hér, núna.
Þegar maðurinn með ljáinn hafði lokið verki sínu hóf hann göngu sína á brott, væntanlega í leit að næstu vesælu sál. En nú lá eitthvað á hjarta allra sem höfðu verið viðstaddir, það sem hafði gerst í dag á Landgraab heimilinu var alls ekki í lagi. Bæði fjölskylda Landgraab stráksins og Zachary urðu svo skelfingu lostin í návist dauðans og mannsins með ljáinn að strákur missti líf sitt. Enginn slökkti eldinn, enginn þorði að grátbiðja manninn með ljáinn um að taka ekki sál stráksins, enginn gerði neitt. Eftirsjáin mallaði í möllum allra. Þessari hegðun varð að breyta, saman þurftu þau einhvern veginn að komast yfir þennan ótta og Zachary vissi nákvæmlega hvernig.
Rétt áður en að maðurinn með ljáinn yfirgaf lóðina tók Zach skyndiákvörðun. Maðurinn með ljáinn varð að vera eftir til þess að þau gætu öll unnið saman úr þessu vandamáli og það var bara ein leið til að hindra brottför hans; Zachary bauð manninum með ljáinn að gerast meðlimur fjölskyldu sinnar og flytja inn á heimili þeirra. Þetta boð kom manninum með ljáinn óvörum og hann vissi ekki alveg hvernig hann ætti að bregðast við. Zach útskýrði fyrir honum að þetta yrði gott fyrir manninn með ljáinn, hann gæti orðið félagslega færari, kynnst fólki og orðið ómissandi hluti samfélagsins. Ef fólk færi að sjá hann sem mann með tilfinningar og drauma myndi fólk hætta að óttast hann. Maðurinn með ljáinn viðurkenndi að honum þætti leiðinlegt hve illa fólk kynni við hann og, viti menn, hann samþykkti tillöguna. Nú samanstóð fjölskylda Zachary af honum, Zoey, barninu Spy og manninum með ljáinn.
Að þessu loknu fór Zach loks í hellinn og veiddi bæði fiska og froska. Maðurinn með ljáinn staldraði við á Landgraab heimilinu. Hann hugsaði um það sem Zach hafði sagt við hann, að hann yrði að reyna að eignast vini og vera félagslegri. Þrátt fyrir að tilhugsunin um að setja þetta í verk gerði hann dálítið kvíðinn ákvað hann samt að reyna. Hann gekk að Nancy Landgraab, kynnti sig og heilsaði henni eins vinalega og hann var fær um. Nancy var greinilega sorgmædd, hafandi misst son fyrir um það bil klukkutíma eða svo, en hún tók í höndina á honum, brosti og kynnti sig; "Sæll, ég heiti Nancy Landgraab, gaman að kynnast þér." Þessi viðbrögð komu manninum með ljáinn á óvart, hann bjóst við reiði eða hræðslu, en það sem hann vissi ekki var að Nancy langaði líka að komast yfir óttann sinn. Hana langaði að gefa manninum með ljáinn séns. Þau ræddu saman um daginn, soninn og sorgina. Maðurinn með ljáinn huggaði Nancy og þau grétu saman. Þau töluðu um áhugamál sín og komust að því að þau áttu nokkur sameiginleg. Áður en þau vissu höfðu þau verið að ræða saman í tæplega þrjár klukkustundir. Hvert hafði tíminn farið? Þeim kom greinilega mjög vel saman, kannski aðeins of vel
(framhald verður birt síðar)
Bloggar | Breytt 27.9.2023 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2023 | 16:20
Strumparnir - Ég á lítinn hvolp (á ensku)
Bloggar | Breytt 14.9.2023 kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2023 | 11:42
Maðurinn með ljáinn: 1. hluti - Hamagangur á Landgraab heimilinu
Ég kynntist manninum með ljáinn í Sims. Þar - líkt og í raunveruleikanum - er hann birtingarmynd dauðans og almenningur óttast hann. Ég gerði það líka. En það átti allt eftir að breytast.
Einu sinni fór Zachary Eye, þáverandi kærasti Zoey Eye (núverandi eiginmaður og barnsfaðir) í leiðangur til Oasis Springs. Þar leynist nefnilega risastór hellir en til þess að komast að honum verður maður að ganga fram hjá og á bak við heimili Landgraab fjölskyldunnar. Zach var einmitt að því þegar hann varð var við einhvern hamagang og læti, einhver var í uppnámi. Hann ákvað að rannsaka þetta frekar og áttaði sig á því að upptök látanna voru í garðinum hjá Landgraab fjölskyldunni. Sonur Nancy og Geoffrey Landgraab hafði verið að grilla mat úti þegar grillið sprakk og sonurinn varð alelda. Þegar Zach áttaði sig á þessu tók skelfing við og tíminn stóð í stað. Fjölskylda stráksins hafði verið inni þegar óhappið átti sér stað en þegar þau urðu vör við eldinn hlupu þau á brott úr hræðslu í stað þess að slökkva hann. Þegar Zach náði áttum hljóp hann rakleiðis til stráksins, Hjálpaðu mér hjálpaðu mér! öskraði strákurinn á hann. Skyldi Zach verða hetja og bjarga honum? Nei. Zach horfði bara á greyið strákinn og öskraði úr skelfingu. Strákurinn brann til dauða. Landgraab fjölskyldan var nú barninu færra. En hryllingurinn var samt ekki yfirstaðinn. Nú mátti búast við komu hins óttalega manns með ljáinn og jú, hann birtist örfáum mínútum eftir dauða stráksins. Hann mætti með eitt verkefni fyrir stafni; að sækja sál barnsins. Landgraab fjölskyldan og Zachary urðu stjörf þegar þau sáu hann svífa fram hjá sér. Hann sveif ákveðinn, beint að stráknum. Hann starði á líkið, þögull, svo lyfti hann ljánni og sló henni niður að stráknum. Um leið og ljárinn kom við líkið hvarf það og í stað þess birtist ker með ösku Landgraab stráksins. Nú var þetta búið, eða hvað? Maðurinn með ljáinn vissi það ekki en lífið hans átti eftir að gjörbreytast þennan dag...
(Annar hluti verður birtur síðar)
Myndskýringar, vinstri til hægri: Maðurinn með ljáinn, nokkrir meðlimir Landgraab fjölskyldunnar (Geoffrey Landgraab lengst til vinstri og Nancy Landgraab lengst til hægri)
Bloggar | Breytt 27.9.2023 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.9.2023 | 10:10
Paul Newman, Svikahrappurinn og Tom Cruise
Vinsældir kjuðaíþróttarinnar púl tóku dýfu eftir seinni heimsstyrjöldina en árið 1961 breyttist allt þegar kvikmyndin The Hustler eða Svikahrappurinn kom út með Paul Newman í aðalhlutverki. Newman leikur púl-töffarann Eddie Felson sem býr yfir miklum hæfileikum en glímir líka við sjálfseyðingarhvöt. Hrokinn hans verður til þess að hann skorar á púl-meistarann Minnesota Fats (leikinn af Jackie Gleason) en hann gjörsigrar Eddie. Nú er Eddie blankur og þjálfaralaus og stendur frammi fyrir því að endurheimta sjálfstraustið sitt og púl-hæfileika. Það er ekki fyrr en að hann tapar öllu að hann ákveður að slást í för með hinum misskunnarlausa púlþjálfara Bert Gordon. Ferill Eddies er á uppleið en hann áttar sig fljótt á því að framinn gæti kostað hann sálina, og mögulega kærustuna líka. Flestir þekkja þessa sögu en það kann að koma einhverjum lesendum á óvart að hvert einasta púl-skot í myndinni er framkvæmt af leikurunum sjálfum (Paul Newman og Jackie Gleason) nema eitt skot; massé skotið (þegar kúlu er skotið í tvær kúlur sem fara ofan í sömu holu). Það var framkvæmt af Willie Mosconi (William Joseph Mosconi eða Herra Vasa Billjard) en hann er talinn vera einn besti púl-íþróttamaður sögunnar. Á árunum 1941 til 1957 sigraði hann heimsmeistarakeppnina í beinu púli nítján sinnum. Eftir útgáfu kvikmyndarinnar ruku upp vinsældir púl á ný, púl-rými fjölguðu samhliða klinkpúlborðum sem ýttu undir spilun íþróttarinnar. Fagpúlíþróttamenn urðu svo vinsælir að andlitsmyndir þeirra voru prentaðar á sígarettupakka. En þrátt fyrir vinsældir Svikahrappans og blómstursskeið púls sem hófst eftir útgáfu kvikmyndirinnar tók púl hins vegar aðra dýfu í vinsældum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar á meðan á Víetnam stríðinu stóð. En Paul Newman lét þetta ekkert á sig hafa og árið 1986 kom út önnur kvikmynd, The Color of Money eða Peningalitur sem var framhaldskvikmynd Svikahrappans. Í þetta skipti hafði Paul stórstjörnuna Tom Cruise með sér í liði. Newman birtist aftur á silfurskjánum sem púl-töffarinn Eddie Felson. Nú finnur hann hinn unga og efnilega púlspilara Vincent Lauria (leikinn af Tom Cruise) á bar og sér yngri útgáfu af sjálfum sér í honum. Í von um að endurvekja gömlu góðu dagana býðst Eddie til þess að kenna Vincent að verða svikahrappur. Vincent hikar aðeins en samþykkir að lokum. Eddie fer með Vincent og kærustu hans Carmen (leikin af Mary Elizabeth Mastrantonio) á púlferðalag um Bandaríkin til þess að Vincent geti æft sig. Hins vegar hefur Vincent tilhneigingu til þess að monta hæfileika sína aðeins of mikið á púlbörunum. Aðrir leikmenn taka eftir honum og hafa ekki áhuga á að spila við hann, þar með tapar Vincent tækifærum til þess að græða pening. Þetta leiðir að átökum á milli Eddie og Vincent. Þessi kvikmynd hafði farsæl áhrif á púlsenuna og flottir púlstaðir opnuðu víða. Síðan þá hefur þeim bara fjölgað og púlspilurum sömuleiðis.
Paul Newman að spila púl sem Eddie Felson í Svikahrappnum
Jackie Gleason að spila púl sem Minnesota Fats í Svikahrappnum
William Joseph Mosconi að spila púl
Tom Cruise að halda á kjuða sem Vincent Lauria í Peningalit
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ung kona verður fyrir því hræðilega óhappi að fá sveppasýkingu á milli tánna. Þessi unga kona er ég og þessar tær eru mínar. Nánar tiltekið eru þetta vísifingurstáin og löngatangartáin á hægri fæti. Samkvæmt Vísindavefnum heita þessar tær reyndar Háa-Þóra og Stutta-Píka. Vísindavefurinn gefur ekki frekari skýringu á þessum nöfnum. Ég tók málið í mínar eigin hendur og sendi Vísindavefnum fyrirspurn rétt í þessu; Hvers vegna heitir miðjutáin Stutta-Píka? Ég hef aldrei sent fyrirspurn á Vísindavefinn áður þannig að ég veit ekki hversu lengi ég mun þurfa að bíða eftir svari en ég vona að biðin verði ekki löng. Ég er svo forvitin en samt ekki nógu fortvitin til að googla Sutta-Píka. Mig langaði reyndar heldur ekki að googla itchy wet skin between toes en ég gerði það samt. Tinea Pedis. Það er fræðilega heitið á því sem mig grunar alla vega að sé í gangi á fætinum mínum. Þessi sveppasýking er líka þekkt sem foot ringworm á ensku. Hringormur á fætinum. Þegar ég las þetta lokaði ég flipanum og opnaði Sims. Gellan mín í Sims er mjög nett. Hún heitir Zoey Spy og barnið hennar heitir Eye Spy. Zoey Spy er geimvísindakona og geimfari og hún er með eldflaug í garðinum hjá sér. Húsið og garðurinn er sko bæði líka ógeðslega flott, ég byggði allt sjálf. Hún er líka mjög góð í garðyrkju, hún er komin í level 9 og þegar hún kemst í level 10 þá get ég látið hana verða að plöntumanneskju. Þá verður húðin hennar græn og hárið hennar verður að laufblöðum. Hún mun ekki þurfa að borða lengur vegna þess að hún mun geta ljóstillífað. Mjög spennandi og skemmtilegt. En eins skemmtilegt og þetta er allt saman er ég ekki að skemmta mér nóg til þess að gleyma hvað mig klæjar mikið á milli tánna. Ég googla meira. Ég sé aftur foot ringworm. Ég ímynda mér pinkulítinn orm sem skreið á milli tánna minna og ákvað að búa þar. Hann vaknar á morgnana og skríður um og borðar húðina mína. Hann er líka veikur eða eitthvað og gefur mér sýkingu. Kannski er þetta konuormur sem var ólétt þegar hún flutti á fótinn minn og núna er hún búin að eignast lítil ormabörn sem skríða öll um fótinn minn. Þau eru líka veik út af mömmunni og dreifa sýkingunni. Kannski eru þau að leika sér einhvern tímann og hoppa yfir á hinn fótinn minn og dreifa sýkingunni þangað. Kannski klóra ég mér í fætinum einhvern tímann og lítill barnaormur stekkur á puttann minn og svo klóra ég mér óvart á nefinu án þess að vera búin að þvo hendurnar og ormurinn stekkur þangað og dreifir sýkingunni yfir allt andlitið mitt. Andlitið mitt verður allt út í blautri flagnandi klæjandi húð sem dreifist síðan um allan líkamann minn. Kannski er þetta ekki einu sinni sveppasýking kannski er þetta eitthvað annað. Kannski er ég með einhvern fáránlegan sjúkdóm sem enginn fær nema ég. Eins og konan í fréttunum um daginn kannski er ég eins og hún. Kannski skrifar einhver frétt um mig á Vísi og allir lesa hana og hugsa vá aumingja hún. En ég er búin að setja krem á fæturnar svo ég verð bara að bíða og sjá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- 15.11.2023 Maðurinn með ljáinn: 5. hluti - Nancy kemur í heimsókn
- 15.11.2023 Knattspyrnumaður númer 1 myndbönd
- 15.11.2023 Maðurinn með ljáinn: 4. hluti - Ósætti á Eye heimilinu
- 2.11.2023 Knattspyrnumaður númer 1 trailer
- 27.10.2023 Pása liðin
Bloggvinir
336 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar